Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kristnihátíðarsjóður og fornleifarannsóknir

Í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi er fjallað um fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal annars er komið inn á hversu mikil áhrif Kristnihátíðarsjóður hafði á þróun fagsins. Um leið eru gerðar athugasemdir við úthlutun út sjóðnum. Bent er á að oft sé meiri vilji til að styrkja uppgröft á fornleifum en úrvinnslu þeirra gagna sem verða til við uppgröftinn. Í greininni segir meðal annars:

Þegar blaðamaður spyr Orra [Vésteinsson, fornleifafræðing] hvaðan fjármagnið ætti að koma verður hann varkár en segir þó að ákveðin mistök hafi hugsanlega verið gerð við úthlutun úr Kristnihátíðarsjóði. 

Og Orri segir svo, orðrétt:

Maður spyr sig hvort það hefði ekki mátt reyna að klára málið strax þegar sjóðurinn var stofnsettur. Það er að segja, það hefði mátt haga úthlutun þannig að sjóðurinn kláraði þau verkefni sem hann stofnaði til.

Vandinn virðist í stuttu máli vera sá að uppgreftirnir á hverjum stað voru styrktir, en eftir er mikil vinna við úrvinnslu gagna. Og það vantar fé til hennar.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sjóðurinn sé yfir gagnrýni hafinn. En.

Það lá fyrir þegar sótt var um styrki til verkefna hversu lengi sjóðurinn myndi starfa. Og það lá fyrir hversu mikið fé væri til skiptanna. Eftir fyrstu úthlutun mátti meira að segja vera ljóst hversu mikils fjármagns væri að vænta í hvert einstakt verkefni.

Og þá spyr maður sig hvort það séu mistök sjóðsins sem úthlutaði fé til verkefnanna að hafa ekki takmarkað styrkina. Eða hvort þetta geti hugsanlega skrifast á þá sem stóðu að verkefnunum sem virðast (ef ég skil greinina rétt) ekki hafa gert ráð fyrir því í sínum áætlunum að vinna þyrfti úr þessum gögnum og haga umfangi uppgraftar á hverjum stað eftir því.


Skrúfum frá krananum

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hófst í dag. Í ár er safnað fyrir vatni eins og í fyrra. Þá söfnuðust 32 milljónir sem dugðu til að grafa 266 brunna. Hver brunnur getur séð 1000 manns fyrir vatni og það munar líklega um minna! Vatnsverkefni Hk eru í þremur löndum: Mósambík, Malaví og Úganda. Gíróseðlar hafa verið sendir út, hægt er að hringja í söfnunarsímann 907 2002 auk þess sem hægt er að gefa í söfnunina á vef Hjálparstarfsins.


mbl.is Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikskólamálin II - Vandi starfsmanna, stjórnenda eða barna?

Undanfarnar vikur hefur vantað starfsfólk á leikskóla eldri dótturinnar á heimilinu. Af þeim sökum hefur þjónusta verið skert þannig að hnátan hefur verið heima eftir hádegi, einn dag í viku. Svo verður út þennan mánuð, en ráðin hefur verið bót á vandanum því nýr starfsmaður mun hefja störf í byrjun desember.

Það verður að segjast að ég hef töluverðar áhyggjur af þessu máli. Ég er hræddur um þessi mannekla endurspegli í raun undirliggjandi vandamál í starfsmannahaldi leikskólanna. Sama vandamál birtist líka í öðru sem er kannski mun alvarlegra: Mikilli starfsmannaveltu á leikskólunum.
Ef ég tek dæmi af þeim leikskóla sem heimasætan er á þá hefur mér virst sem það sé ákveðinn fastur kjarni (annars vegar eldri konur sem hafa starfað lengi á leikskólunum, hins vegar yngri konur sem virðast vera í þessu af hugsjón) sem telur kannski tvo þriðju af starfsliðinu. En sá þriðjungur sem eftir er er síbreytilegur (ef svo má að orði komast).

Og það er sannast sagna mjög slæmt því það þýðir að börnin litlu þurfa aftur og aftur að kynnast nýju starfsfólki, læra að treysta þeim ... til þess eins að missa þau svo örfáum mánuðum síðar. Þetta er auðvitað ekki hægt.

Ég geri mér grein fyrir að það eru engin ný sannindi í því sem ég skrifa hér að ofan, en vil engu að síður færa það til annáls þótt ekki væri nema til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar.

Stóra spurningin er kannski þessi: Hvað er leikskólaráð að gera í málinu?

Leikskólamálin I - Gullborg

Ég vil taka undir áskorun Foreldrafélagsins Gullborgar að brugðist verði við manneklu á leikskólum borgarinnar og málum komið í ásættanlegt horf. Það er broddur í bréfi félagsins til Reykjavíkurborgar:

Um þessar mundir standa einnig yfir breytingar á stjórnkerfi leikskólanna. Sett er á svið nýtt leikskólasvið. Talið er að þessar breytingar á stjórnkerfinu komi til með að kosta á milli 40 og 50 miljónir. Nær væri að nota féð til þess að bæta vinnuaðstöðu leikskólakennara og annarra starfsmanna og greiða þeim sómasamleg laun fyrir að sinna því dýrmætasta sem að þessi þjóð á. Á sama tíma er rætt um að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík og opna yngri barna deildir eða vöggustofur. Hvaða fólk ætlar að vinna þar, þegar enn vantar starfsfólk á um það bil 50 leikskóla í alls 68 stöðugildi?

 

Það verður gaman að lesa svar borgarinnar. 


mbl.is Skora á borgaryfirvöld að bregðast við vanda leikskólanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með göngu- og hjólastígana?

Nætursöltun á götum er eitt af því sem borgaryfirvöld hyggjast gera í baráttunni við svifryk. Nú verða saltarar á næturvöktum og tryggja að strætóleiðir, stofnbrautir og fjölfarnar safngötur verði auðar fyrir kl. 7 að morgni.

Það er hið besta mál að göturnar séu auðar og ánægjulegt er að tekið sé á því máli af festu. En ég sakna eins í umfjölluninni um svifrykið: Áherslunnar á hjóla- og göngustíga. Þeir vilja nefnilega oft verða útundan.

Á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar segir meðal annars:

Ljóst er draga má úr svifryksmengun með því fækka ferðum á bifreiðum, fara oftar í strætó, nota reiðhjól og hjóla í vinnuna.

Það er í ljósi þessa brýnt að borgaryfirvöld leggi enn meiri áherslu á að halda göngu- og hjólastígum hreinum og auðum þannig að þeir sem það vilja geti gengið eða hjólað í vinnuna. Eitt skref í þá átt hefði tvímælalaust verið að hafa meira af göngu- og hjólastígum inni í nætursöltuninni (sem er reyndar söndun í því tilfelli) en bara gönguleiðir að strætóskýlum og skólum - þótt slíkt sé að sjálfsögðu hið besta mál. Því með aukinni söndun á þessum stígum má stuðla að aukinni nýtingu tveggja jafnfljótra og reiðhjóla í baráttunni við svifrykið.

Þegar ég bjó í Svíþjóð mátti reiða sig á það að þegar lagt var af stað til skóla eða vinnu að morgni dags var búið að sanda göngustíga, gangstéttar og hjólastíga. Og það var aldrei vandamál að komast leiðar sinnar. Mikið væri gott ef það sama væri raunin í Reykjavík.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband