21.11.2006
Ríki, kirkja og þjóðkirkjuhugtakið
Á dögunum kom út bókin Ríki og kirkja. Uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins. Höfundur hennar er dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands.
Ég hitti Sigurjón Árna á vinnustofu hans á dögunum og fræddist um bókina. Í viðtalinu, sem hægt er að horfa á hér á vefnum, segir Sigurjón frá bókinni og helstu niðurstöðum hennar. Hann ræðir líka um helstu einkenni þjóðkirkju, um fríkirkjur auk þess sem hann fjallar um hlutverk kirkjunnar í nútíma samfélagi.
Bókin Ríki og kirkja fjallar um samband ríkis og kirkju í ljósi þjóðkirkjuhugtaksins. Sigurjón fjallar um guðfræðinga sem hafa haft mikil áhrif á lútherskan kirkjuskilning. Fyrst um Martein Lúther og þá um Friedrich Schleiermacher.
Þegar Friedrich Schleiermacher setur fram sinn kirkjuskilning þá er kirkjan sem stofnun frekar veik, er alfarið ríkiskirkja. Vandinn sem hann stendur frammi fyrir er hvernig eigi að skilgreina kirkjuna og gera hana sjálfstæða sem stofnun.
Í framhaldi af því er fjallað um fyrir guðfræðinga sem hafa látið til sín taka á sviði kirkjufræði í Þýskalandi í samtíma okkar, t.d. Eilert Herms, Reiner Preul og Wilfried Härle. Þeir eru að skilgreina kirkjuna í dag sem er áhugavert fyrir okkur vegna þess að þýska kirkjan gekk í gegnum aðskilnað frá ríkinu í upphafi 20. aldar.
Spurður um helstu niðurstöður bókarinnar segir Sigurjón:
Kirkjan verður að taka fullan þátt í samfélagsumræðunni. Umburðarlyndi felst ekki í því að ypta öxlum og vera sammála öllum eða draga sig í hlé, heldur standa á hinum kristnu gildum og gera þau heyrinkunn í samfélaginu. [ ] Umburðarlyndi felst í því að virða muninn og leyfa honum að standa. [ ] Fjölhyggjan gengur upp í því að maður virðir fjölbreytileika samfélagsins og styrkir þann ramma sem tryggir að opin umræða geti átt sér stað.
Brynjólfur Ólason var aðstoðmaður Sigurjóns við verkefnið og braut bókina um. Kristnihátíðarsjóður styrkti rannsóknina sem liggur að baki þessari bók, en hún er hluti af rannsóknarverkefninu Trúfrelsi, þjóðkirkja, samband ríkis og kirkju 18741997.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.