Kristnihátíðarsjóður og fornleifarannsóknir

Í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi er fjallað um fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal annars er komið inn á hversu mikil áhrif Kristnihátíðarsjóður hafði á þróun fagsins. Um leið eru gerðar athugasemdir við úthlutun út sjóðnum. Bent er á að oft sé meiri vilji til að styrkja uppgröft á fornleifum en úrvinnslu þeirra gagna sem verða til við uppgröftinn. Í greininni segir meðal annars:

Þegar blaðamaður spyr Orra [Vésteinsson, fornleifafræðing] hvaðan fjármagnið ætti að koma verður hann varkár en segir þó að ákveðin mistök hafi hugsanlega verið gerð við úthlutun úr Kristnihátíðarsjóði. 

Og Orri segir svo, orðrétt:

Maður spyr sig hvort það hefði ekki mátt reyna að klára málið strax þegar sjóðurinn var stofnsettur. Það er að segja, það hefði mátt haga úthlutun þannig að sjóðurinn kláraði þau verkefni sem hann stofnaði til.

Vandinn virðist í stuttu máli vera sá að uppgreftirnir á hverjum stað voru styrktir, en eftir er mikil vinna við úrvinnslu gagna. Og það vantar fé til hennar.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sjóðurinn sé yfir gagnrýni hafinn. En.

Það lá fyrir þegar sótt var um styrki til verkefna hversu lengi sjóðurinn myndi starfa. Og það lá fyrir hversu mikið fé væri til skiptanna. Eftir fyrstu úthlutun mátti meira að segja vera ljóst hversu mikils fjármagns væri að vænta í hvert einstakt verkefni.

Og þá spyr maður sig hvort það séu mistök sjóðsins sem úthlutaði fé til verkefnanna að hafa ekki takmarkað styrkina. Eða hvort þetta geti hugsanlega skrifast á þá sem stóðu að verkefnunum sem virðast (ef ég skil greinina rétt) ekki hafa gert ráð fyrir því í sínum áætlunum að vinna þyrfti úr þessum gögnum og haga umfangi uppgraftar á hverjum stað eftir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband