Kirkjan og Íraksstríðið

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, ræddi um Íraksstríðið og aftöku Saddam Hussein í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. Hann sagði meðal annars:

Í tilgangslausu stríði í Írak hafa þúsundir á þúsundir ofan fallið í valinn, þúsundir saklausra karla, kvenna og barna. Keðjuverkun ofbeldis virðist engan enda ætla að taka. Aftaka Saddams var einn viðbjóðslegi þátturinn í þeirri ömurlegu atburðarás og verður eflaust vatn á myllu hermdarverkamanna sem nota það tækifæri til að réttlæta enn meiri dráp og skelfingu.
Hann áréttaði líka afstöðu sína til dauðarefsinga og benti á afstöðu systurkirkna okkar til þeirra: 
Ég hef megnustu andstyggð og óbeit á dauðarefsingum, eins og þorri Íslendinga. Kirkjuleiðtogar og kirknasamtök um allan heim hafa fordæmt dauðarefsingar sem villimannlegar og ómannúðlegar. Með aftöku sakamannsins er í raun verið að segja að það sé ekkert rúm fyrir iðrun og endurnýjun hugarfars og lífernis. Fagnaðarerindi Jesú, hins dauðadæmda sakamanns, sem fæddist í Betlehem og reis af gröf, er einmitt um náð Guðs sem er ný á hverjum morgni, um fyrirgefningu syndanna og sáttargjörð, sem rýfur vítahring hefnda og endurgjalds.

Svo spurði hann lykilspurninga sem okkur væri hollt að hafa í huga:

Hvenær linnir blóðsúthellingunum í Írak og Palestínu? Hvenær falla múrar haturs og heiftar? Hvenær kemst læknandi afl og áhrif friðar og sáttargjörðar þar að? Og hvað getum við gert til að stuðla að því?

 Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann tekur Íraksstríðið fyrir í nýársprédikun. Í prédikun sem flutt var á nýársdag 2003 sagði hann:

Á morgni nýja ársins eru ófriðarblikur við sjóndeildarhring. Enn virðist sem ofurtrú manna á mátt hernaðar og valdbeitingar til að leysa vanda hnýti enn fastar þá hnúta sem fjötra heilu þjóðfélögin í vítahring ofbeldis, kúgunar og hermdaverka. Ávextirnir eru skelfing og dauði sem jörðinni spillir og lífinu ógnar. Það er sem ljósár aðskilji menningarheima og enn eykst gjáin milli ríkra og snauðra á okkar auðugu jörð. Enn er manndráp og neyðarkvein hlutskipti milljóna manna. Enn þetta ár, ef svo fer fram sem horfir, enn þetta ár. Kirkjuleiðtogar um víða veröld vara eindregið við stríði við Írak og hvetja til þess að reynt sé til þrautar að finna lausn friðar og réttlætis. Þar má nefna Jóhannes Pál páfa og forystumenn kirkna og kirknasambanda austan hafs og vestan. Ég hvet íslenska þjóð og kirkju að taka undir með þeim. Höldum fast í vonina um frið og réttlæti í samskiptum þjóða og trúarbragða, vinnum og biðjum að sú von rætist.

Hann sendi líka frá sér yfirlýsingu vegna stríðsins í mars 2003:

Við hörmum að enn skuli gripið til vígtólanna og þau látin skera úr deilumálum. Það er mikill ósigur fyrir mannkynið og vonir okkar um nýja heimsskipan þar sem siðgæðisleg megingildi væru í heiðri höfð, virðing fyrir alþjóðalögum, réttlæti og frelsi, mannúð og mildi.

Ps. Þeir sem vilja lesa enn meira geta skoðað yfirlit yfir starf kirkjunnar í þágu friðar og  ályktun Prestastefnu vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak.


mbl.is Biskup Íslands gagnrýnir aftöku Saddams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll!  Flott ræða hjá Karli!

Baldur Kristjánsson, 4.1.2007 kl. 23:55

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ætla bara að kvitta hér - auðvitað er ég á móti öllu hernaðarbrölti þegar kemur að deilumálum (nema kannski hjá Hjálpræðishernum) tel það bera gleggstan vott um heimsku mannanna.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.1.2007 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband