Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kristnihátíðarsjóður og fornleifarannsóknir

Í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi er fjallað um fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal annars er komið inn á hversu mikil áhrif Kristnihátíðarsjóður hafði á þróun fagsins. Um leið eru gerðar athugasemdir við úthlutun út sjóðnum. Bent er á að oft sé meiri vilji til að styrkja uppgröft á fornleifum en úrvinnslu þeirra gagna sem verða til við uppgröftinn. Í greininni segir meðal annars:

Þegar blaðamaður spyr Orra [Vésteinsson, fornleifafræðing] hvaðan fjármagnið ætti að koma verður hann varkár en segir þó að ákveðin mistök hafi hugsanlega verið gerð við úthlutun úr Kristnihátíðarsjóði. 

Og Orri segir svo, orðrétt:

Maður spyr sig hvort það hefði ekki mátt reyna að klára málið strax þegar sjóðurinn var stofnsettur. Það er að segja, það hefði mátt haga úthlutun þannig að sjóðurinn kláraði þau verkefni sem hann stofnaði til.

Vandinn virðist í stuttu máli vera sá að uppgreftirnir á hverjum stað voru styrktir, en eftir er mikil vinna við úrvinnslu gagna. Og það vantar fé til hennar.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sjóðurinn sé yfir gagnrýni hafinn. En.

Það lá fyrir þegar sótt var um styrki til verkefna hversu lengi sjóðurinn myndi starfa. Og það lá fyrir hversu mikið fé væri til skiptanna. Eftir fyrstu úthlutun mátti meira að segja vera ljóst hversu mikils fjármagns væri að vænta í hvert einstakt verkefni.

Og þá spyr maður sig hvort það séu mistök sjóðsins sem úthlutaði fé til verkefnanna að hafa ekki takmarkað styrkina. Eða hvort þetta geti hugsanlega skrifast á þá sem stóðu að verkefnunum sem virðast (ef ég skil greinina rétt) ekki hafa gert ráð fyrir því í sínum áætlunum að vinna þyrfti úr þessum gögnum og haga umfangi uppgraftar á hverjum stað eftir því.


Chattaway fjallar um Leiðina til Betlehem

Peter Chattaway fjallar um Nativity Story í Christianity Today. Eitt af því sem mér líkar við umfjallanir um kvikmyndir á þeim vef er að það fylgja alltaf spurningar sem má nota í samtali um myndina. Í spurningunum er kastljósinu meðal annars beint að tilvitnuninni 1Kon, kærleikanum, viðhorfi þorpsbúanna í Nasaret til hinnar ófrísku Maríu og fjölskyldu hennar og til hins þess hvernig má skoða fæðingu Jesú sem svar við kúgun Gyðinganna. Allt áhugaverð atriði sem má velta nánar fyrir sér.



Af hverju ...

Örn Bárður Jónsson er einn af bloggandi prestunum. Prédikun hans frá því í dag er nú komin á bloggið. Þar segir meðal annars:

Og oft kemur fólk til prestsins með þessa spurningu andspænis þjáningu og dauða ástvinar: Af hverju lætur Guð þetta gerast? Og svarið er: Guð lætur þetta ekki gerast. En hann er með okkur í erfiðleikum og andstreymi lífsins. Krossinn er tákn þeirrar elsku sem Guð hefur sýnt þessum heimi þjáningar og böls. Lausnin er fólgin í hinum þjáða Guði, Jesú Kristi.


Ríki, kirkja og þjóðkirkjuhugtakið

Á dögunum kom út bókin Ríki og kirkja. Uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins. Höfundur hennar er dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Ég hitti Sigurjón Árna á vinnustofu hans á dögunum og fræddist um bókina. Í viðtalinu, sem hægt er að horfa á hér á vefnum, segir Sigurjón frá bókinni og helstu niðurstöðum hennar. Hann ræðir líka um helstu einkenni þjóðkirkju, um fríkirkjur auk þess sem hann fjallar um hlutverk kirkjunnar í nútíma samfélagi.

 

Bókin Ríki og kirkja fjallar um samband ríkis og kirkju í ljósi þjóðkirkjuhugtaksins. Sigurjón fjallar um guðfræðinga sem hafa haft mikil áhrif á lútherskan kirkjuskilning. Fyrst um Martein Lúther og þá um Friedrich Schleiermacher.

„Þegar Friedrich Schleiermacher setur fram sinn kirkjuskilning þá er kirkjan sem stofnun frekar veik, er alfarið ríkiskirkja. Vandinn sem hann stendur frammi fyrir er hvernig eigi að skilgreina kirkjuna og gera hana sjálfstæða sem stofnun.“

Í framhaldi af því er fjallað um fyrir guðfræðinga sem hafa látið til sín taka á sviði kirkjufræði í Þýskalandi í samtíma okkar, t.d. Eilert Herms, Reiner Preul og Wilfried Härle. Þeir eru að skilgreina kirkjuna í dag sem er áhugavert fyrir okkur vegna þess að þýska kirkjan gekk í gegnum aðskilnað frá ríkinu í upphafi 20. aldar.

Spurður um helstu niðurstöður bókarinnar segir Sigurjón:

„Kirkjan verður að taka fullan þátt í samfélagsumræðunni. Umburðarlyndi felst ekki í því að ypta öxlum og vera sammála öllum eða draga sig í hlé, heldur standa á hinum kristnu gildum og gera þau heyrinkunn í samfélaginu. […] Umburðarlyndi felst í því að virða muninn og leyfa honum að standa. […] Fjölhyggjan gengur upp í því að maður virðir fjölbreytileika samfélagsins og styrkir þann ramma sem tryggir að opin umræða geti átt sér stað.“

Brynjólfur Ólason var aðstoðmaður Sigurjóns við verkefnið og braut bókina um. Kristnihátíðarsjóður styrkti rannsóknina sem liggur að baki þessari bók, en hún er hluti af rannsóknarverkefninu Trúfrelsi, þjóðkirkja, samband ríkis og kirkju 1874–1997.

 


Allra heilagra messa

Allra heilagra messa er haldin 1. nóvember ár hvert. Hægt er að fræðast örlítið um daginn þann í prédikunum sem fluttar hafa verið á allra heilagra messu. Í einni þeirra - sem hefur yfirskriftina Hrekkjavaka eða líf - segir Sigurður Árni Þórðarson:

Allra heilagra messa er því merkilegur dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið. En þessi dagur er ekki aðeins um hina látnu heldur um líf hinna lifandi, um hvernig við eigum að lifa vel. Við ættum að fella hrekkjavökubúninga okkar eigin andlega lífs og lifa þannig að það það sjáist, heyrist og finnist á bragðinu að Guð er Guð.

Hver er lífsstefna þín? Hvernig er trúarlíf þitt? Hvernig er saltbúskap þínum háttað, eða ljósgangi lífs þíns? Er stuðið búið, allt orðið bragðdauft. Er myrkrið að gleypa og kokkarí lífsins búið? Guð kallar, gefur ljós, hleypir straumi á, kokkar vel í veisluhúsinu stóra. “Því að lítið stoðar að halda ina ytri hátíð omnium sanctorum á jörðu, ef hjörtu ór fýsast eigi til innar innri hátíðar þeirra á himni.”

 


Viðtal við verkefnisstjóra kærleiksþjónustu

Stefna á sviði kærleiksþjónustu og hjálparstarfs var samþykkt á Kirkjuþingi í gær. Ég tók af því tilefni viðtal við Ragnheiði Sverrisdóttur, verkefnisstjóra á sviði kærleiksþjónustu á Biskupsstofu. 



mbl.is Sóknir hvattar til að sinna vinaheimsóknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Systur á Kirkjuþingi

Við spjölluðum við fyrstu systurnar á Kirkjuþingi, þær Dagnýju Höllu og Kristínu Þórunni Tómasardætur. Þær hafa báðar starfað lengi innan kirkjunnar og vinna nú í sitthvoru prófastsdæminu. Kristín Þórunn sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og Dagný Halla sem framkvæmdastjóri ÆSKR í Reykjavíkurprófastsdæmunum tveimur. 



Guðlast

Sigurður Árni, Neskirkjuprestur, ræddi um guðlast í prédikun sinni í gær. Hann sagði meðal annars:

Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað og flutt í útvarpi og birt í sjónvarpi, sem hefur verið á mörkum hins siðlega. En fleiri dómar hafa ekki gengið í guðlastsmálum - mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt guðlastsdómar væru felldir. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef Helgi Hóseasson, mótmælandi Íslands, hefði verið dæmdur fyrir guðlast? Nei og hann ekki heldur. Hefðum við verið bættari ef Spaugstofumenn hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og Guði allra síst verið sómi sýndur.

Lesið alla prédikunina á trú.is ... 


Grunngildin og netið

Í ávarpi sínu við upphaf kirkjuþings kom biskup meðal annars inn á verkefnið um guðfræði og siðfræði nýrra miðla. Hann sagði:

Netið og veraldarvefurinn verða sífellt mikilvægari upplýsingamiðlar í samtíma okkar. Í því felast mörg tækifæri, en líka ógnanir. Um leið og við höfum mörg dæmi um góð og gagnleg samskipti á netinu þá berast reglulega fregnir af einelti og annarri óhæfu. Veruleiki barna og ungmenna mótast af þessari bylgju möguleika til samskipta í veröld sem er ný og spennandi, en stundum hál, og við þurfum öll að staldra við til að skoða betur bæði tækifæri og ógnanir sem felast í þessum möguleikum. Biskupsstofa mun halda nokkur málþing á næstu mánuðum um guðfræði og siðfræði nýrra miðla þar sem kastljósinu verður meðal annars beint að samskiptareglum, siðferði og mannskilningi á internetinu.

Ræðan er aðgengileg á vef Kirkjuþings, bæði til aflestrar og til hlustunar.


mbl.is Biskup Íslands segir kirkjuna eiga að andæva lögmáli frumskógarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyrrlæti og netfíkn

Í Mbl í dag er greint frá því að netfíkn sé að verða alvarlegt vandamál í Bandaríkjunum. Það væri fróðlegt að lesa sambærilegar tölur fyrir Ísland. Annars fannst mér þetta kallast skemmtilega á við prédikunina sem ég flutti í Hallgrímskirkju á miðvikudagsmorgun þar sem ég hvatti til þess að teknir væri upp reglulegir tækni-hvíldardagar. Það væri kannski ástæða til fylgja því enn frekar eftir.


mbl.is Netfíkn verður algengari og alvarlegri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband