1.1.2007
Kirkjan og Íraksstríðið
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, ræddi um Íraksstríðið og aftöku Saddam Hussein í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. Hann sagði meðal annars:
Í tilgangslausu stríði í Írak hafa þúsundir á þúsundir ofan fallið í valinn, þúsundir saklausra karla, kvenna og barna. Keðjuverkun ofbeldis virðist engan enda ætla að taka. Aftaka Saddams var einn viðbjóðslegi þátturinn í þeirri ömurlegu atburðarás og verður eflaust vatn á myllu hermdarverkamanna sem nota það tækifæri til að réttlæta enn meiri dráp og skelfingu.
Ég hef megnustu andstyggð og óbeit á dauðarefsingum, eins og þorri Íslendinga. Kirkjuleiðtogar og kirknasamtök um allan heim hafa fordæmt dauðarefsingar sem villimannlegar og ómannúðlegar. Með aftöku sakamannsins er í raun verið að segja að það sé ekkert rúm fyrir iðrun og endurnýjun hugarfars og lífernis. Fagnaðarerindi Jesú, hins dauðadæmda sakamanns, sem fæddist í Betlehem og reis af gröf, er einmitt um náð Guðs sem er ný á hverjum morgni, um fyrirgefningu syndanna og sáttargjörð, sem rýfur vítahring hefnda og endurgjalds.
Svo spurði hann lykilspurninga sem okkur væri hollt að hafa í huga:
Hvenær linnir blóðsúthellingunum í Írak og Palestínu? Hvenær falla múrar haturs og heiftar? Hvenær kemst læknandi afl og áhrif friðar og sáttargjörðar þar að? Og hvað getum við gert til að stuðla að því?
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann tekur Íraksstríðið fyrir í nýársprédikun. Í prédikun sem flutt var á nýársdag 2003 sagði hann:
Á morgni nýja ársins eru ófriðarblikur við sjóndeildarhring. Enn virðist sem ofurtrú manna á mátt hernaðar og valdbeitingar til að leysa vanda hnýti enn fastar þá hnúta sem fjötra heilu þjóðfélögin í vítahring ofbeldis, kúgunar og hermdaverka. Ávextirnir eru skelfing og dauði sem jörðinni spillir og lífinu ógnar. Það er sem ljósár aðskilji menningarheima og enn eykst gjáin milli ríkra og snauðra á okkar auðugu jörð. Enn er manndráp og neyðarkvein hlutskipti milljóna manna. Enn þetta ár, ef svo fer fram sem horfir, enn þetta ár. Kirkjuleiðtogar um víða veröld vara eindregið við stríði við Írak og hvetja til þess að reynt sé til þrautar að finna lausn friðar og réttlætis. Þar má nefna Jóhannes Pál páfa og forystumenn kirkna og kirknasambanda austan hafs og vestan. Ég hvet íslenska þjóð og kirkju að taka undir með þeim. Höldum fast í vonina um frið og réttlæti í samskiptum þjóða og trúarbragða, vinnum og biðjum að sú von rætist.
Hann sendi líka frá sér yfirlýsingu vegna stríðsins í mars 2003:
Við hörmum að enn skuli gripið til vígtólanna og þau látin skera úr deilumálum. Það er mikill ósigur fyrir mannkynið og vonir okkar um nýja heimsskipan þar sem siðgæðisleg megingildi væru í heiðri höfð, virðing fyrir alþjóðalögum, réttlæti og frelsi, mannúð og mildi.
Ps. Þeir sem vilja lesa enn meira geta skoðað yfirlit yfir starf kirkjunnar í þágu friðar og ályktun Prestastefnu vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak.
Biskup Íslands gagnrýnir aftöku Saddams | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á mbl.is og vísi.is má nú lesa frétt um Íslending ársins skv. tímaritinu Ísafold. Það er bloggarinn Ásta Lovísa, einstæð þriggja barna móðir sem berst við krabbamein. Um leið og ég óska henni til hamingju með nafnbótina og fagna því fyrir hönd bloggsamfélagsins að nafnbót sem þessi falli bloggara í skaut þá vil ég lýsa vonbrigðum mínum með það að hvorugur vefmiðillinn vísi í bloggið hennar í fréttinni. Vonandi verður bætt úr því fljótlega.
Ps. Bloggið hennar er á www.123.is/crazyfroggy.
Ísafold velur Ástu Lovísu Íslending ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2006
Baggalútur, barnið og þú
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, gerði Söguna af Jesúsi í flutningi Baggalúts að umtalsefni í prédikun sinni á jólanótt. Hann spurði líka hvers vegna við höldum jól:
Af hverju höldum við jól? Af hverju erum við hér? Um hvað snýst þetta? Um helgi og kyrrð, fegurð, ljós og frið, sem vill fá að ummynda líf og heim og sem við getum þegið í trú og kærleika. Um þetta snúast jólin. Þetta er boðskapurinn sem þau bera, þetta er boðskapurinn sem felst í jólaguðspjallinu. Það fjallar um Jósef og Maríu og barnið sem fæddist í fjárhúsi af því að ekkert rúm var fyrir þau í mannabústöðum Betlehem. Barnið sem er frelsarinn, Kristur Drottinn. Guð með oss.
Biskup Íslands: Jesúbarnið vantar hæli í heiminum okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.12.2006
Menningarlega opin kirkja
Menningarlega opin kirkja er yfirskrift viðtals Sigurbjargar Þrastardóttur við Sigurjón Árna Eyjólfsson í Lesbók Mbl í dag. Þetta er hið prýðilegasta viðtal og veitir ágæta innsýn í bókina. Sigurjón segir meðal annars:
Manngildishugsjónin í kristninni er afar sterk. Kirkjan á nána samleið með einstaklingnum á lífsleiðinni. Þjóðkirkjan rammar inn lífólks með athöfnum eins og skírn - sem jafngildir inngöngu - fermingu og giftingu, hátíðum kirkjuársins, allt til útfarar, eins og birtist vel þegar flett er í gegnum myndaalbúm fólks.
Ég tók viðtal við Sigurjón þegar bókin kom út sem sjá má hér á blogginu.
Ps. Ég sé ekki í fljótu bragði að hægt sé að blogga um lesbókargreinar með sama hætti og blogga má um fréttir, en mikið væri það nú gott ef þetta væri hægt.
8.12.2006
Keli, fólk og hugmyndir
Það er ósjaldan hægt að lesa skemmtilegar og vekjandi færslur á annálnum hans Þorkels. Ein færslan fjallar um fólk og hugmyndir og það sem heillar. Hann skrifar meðal annars:
Ég hef aldrei skilið fólk sem heillast af fólki. Mér finnst reyndar oft skemmtilegt að heyra fólk lýsa öðru fólki (í öðrum tilgangi en baktali) því það veitir mér sýn á það sem fer oft fram hjá mér. Staðreyndin er sú að mér leiðist yfirleitt fólk. Það er ósköp hversdagslegt og venjulegt allt saman. Fjölbreytni manna á milli er stórlega ofmetin. Ég er nokkuð fljótur að lesa persónuleika fólks svo oftast kemur fátt á óvart eftir fyrstu 10 mínúturnar. Það sem heillar mig hins vegar eru hugmyndir, kenningar og viðhorf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006
Í aðventulit
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006
Aðventa er ... jólakort
Á aðventunni birtast daglega örpistlar eftir Stínu Gísla, prest í Holti, um aðventuna. Pistlarnir eru birtir á trú.is, í almanakinu, og þeir gefa skemmtilega innsýn í ólíkar víddir þessa tímabils kirkjuársins. Í dag skrifar Stína um jólakort og minnir okkur á tilganginn með jólakortaskrifum:
Jólakortin eru vinarkveðja á mikilvægri hátíð. Á aðventunni er gott að láta hugann reika til ástvina og vina og hugleiða hve við erum rík að eiga marga vini. Jólakveðjurnar eru liður í því að rækta vináttuna. Um leið og við skrifum jólakortin látum við hugann dvelja hjá viðkomandi vinum - og biðjum fyrir þeim.
Í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi er fjallað um fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal annars er komið inn á hversu mikil áhrif Kristnihátíðarsjóður hafði á þróun fagsins. Um leið eru gerðar athugasemdir við úthlutun út sjóðnum. Bent er á að oft sé meiri vilji til að styrkja uppgröft á fornleifum en úrvinnslu þeirra gagna sem verða til við uppgröftinn. Í greininni segir meðal annars:
Þegar blaðamaður spyr Orra [Vésteinsson, fornleifafræðing] hvaðan fjármagnið ætti að koma verður hann varkár en segir þó að ákveðin mistök hafi hugsanlega verið gerð við úthlutun úr Kristnihátíðarsjóði.
Og Orri segir svo, orðrétt:
Maður spyr sig hvort það hefði ekki mátt reyna að klára málið strax þegar sjóðurinn var stofnsettur. Það er að segja, það hefði mátt haga úthlutun þannig að sjóðurinn kláraði þau verkefni sem hann stofnaði til.
Vandinn virðist í stuttu máli vera sá að uppgreftirnir á hverjum stað voru styrktir, en eftir er mikil vinna við úrvinnslu gagna. Og það vantar fé til hennar.
Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sjóðurinn sé yfir gagnrýni hafinn. En.
Það lá fyrir þegar sótt var um styrki til verkefna hversu lengi sjóðurinn myndi starfa. Og það lá fyrir hversu mikið fé væri til skiptanna. Eftir fyrstu úthlutun mátti meira að segja vera ljóst hversu mikils fjármagns væri að vænta í hvert einstakt verkefni.
Og þá spyr maður sig hvort það séu mistök sjóðsins sem úthlutaði fé til verkefnanna að hafa ekki takmarkað styrkina. Eða hvort þetta geti hugsanlega skrifast á þá sem stóðu að verkefnunum sem virðast (ef ég skil greinina rétt) ekki hafa gert ráð fyrir því í sínum áætlunum að vinna þyrfti úr þessum gögnum og haga umfangi uppgraftar á hverjum stað eftir því.
Peter Chattaway fjallar um Nativity Story í Christianity Today. Eitt af því sem mér líkar við umfjallanir um kvikmyndir á þeim vef er að það fylgja alltaf spurningar sem má nota í samtali um myndina. Í spurningunum er kastljósinu meðal annars beint að tilvitnuninni 1Kon, kærleikanum, viðhorfi þorpsbúanna í Nasaret til hinnar ófrísku Maríu og fjölskyldu hennar og til hins þess hvernig má skoða fæðingu Jesú sem svar við kúgun Gyðinganna. Allt áhugaverð atriði sem má velta nánar fyrir sér.
26.11.2006